Árangursrík atvinnuleit

Atvinnuleitin

Á síðunni

Atvinnuleitin

Til þess að atvinnuleitin sé árangursrík þarf atvinnuleitandi góðan undirbúning sem krefst tíma, skipulags og góðra verkfæra. Atvinnuleitin getur tekið langan tíma og því er mikilvægt að vera áræðin og jákvæð. Hér að neðan eru atriði sem þú getu nýtt þér sem verkfæri í atvinnuleitinni:

Það getur stundum komið atvinnuleitendum á óvart hve leit að starfi getur verið tímafrek. Rannsóknir hafa sýnt að líkur á að fá starf aukast þegar einstaklingar skipuleggja sig vel, gefa sér tíma í verkefnið og skapa sér næði til að einbeita sér. Gott er að útbúa áætlun um hvernig þú ætlar að sinna atvinnuleitinni, hvenær dags, hvar og hve lengi. Atvinnuleit er vinna.


Hvernig er ímynd þín á internetinu? Það sem þú birtir á samfélagsmiðlum getur birst víðar en á síðunni þinni. Það getur haft áhrif á þann sem hefur áhuga á að ráða þig í starf. Allt skiptir máli, meira að segja netfangið þitt gæti haft áhrif á val í atvinnuviðtal.

  • Þú mátt gera ráð fyrir að sá sem les umsókn þína fari á netið og fletti þér upp. Hvað finnur hann þar?
  • Hlutlaust/venjulegt netfang sem hefur ekki vísun í unglingsárin eða gamalt fyrirtæki sem er löngu hætt.
  • Hvernig er biðtónninn í símanum þínum?

Þegar við tökum fyrsta skrefið í átt að nýju verkefni eða starfi, fyllumst við oft aukinni orku og von. Aftur á móti þegar ferlið dregst á langinn, fer sjálfstraustið að dvína og meiri líkur á uppgjöf. Þá kemur úthaldið inn – að halda áfram þrátt fyrir mótlæti.

Það að láta ekki bugast við fyrsta mótbyr er lykilatriði í atvinnuleit. Sumir virðast dafna í áskorunum, á meðan aðrir finna fyrir orkuleysi. En það er hægt að byggja upp úthald og andlegt þrek. Þar koma þættir eins og trú á og trú á eigin getu, sækja sér stuðning, vera jákvæð/ur og leita lausna í stað þess að festast í vandanum. Þetta eru hæfniþættir sem má rækta og efla með tímanum.


Tengslanet

Með tengslaneti er átt við net einstaklinga sem tengjast hver öðrum í gegnum sambönd og samskipti sem geta bæði verið persónuleg og fagleg. Þetta getur verið fjölskylda, vinir, vinnufélagar, skólasystkini eða jafnvel laus tengsl við fólk sem þú hefur hitt í gegnum sameiginleg áhugamál eða verkefni.

Merkingin á bak við tengslanet snýst um möguleikana sem felast í þessum tengslum. Í faglegu samhengi getur gott tengslanet veitt upplýsingar, stuðning, ráðgjöf, tækifæri til atvinnu eða samstarfs. Í persónulegu samhengi getur það falið í sér tilfinningalegan stuðning, samveru og innblástur.

Tengslanet þitt er fólkið sem þú hefur kynnst í gegnum tíðina. Samnemendur, fyrrum samstarfsfólk, fólk sem þú hefur hitt í gegnum hópa sem þú hefur tilheyrt s.s. kórinn,  foreldrafélagið og fleira. Það getur verið fólk sem þú kannast við, fólk sem þú treystir  til að leita til um hvernig staðan er á þeirra vinnustað eða í faginu sem viðkomandi tilheyrir. Þú leitar auðvitað fyrst til einstaklinga sem þú telur að séu þér vinveittir, sem þekkja þig af gjörðum þínum eða viðkynningu. Þetta snýst ekki um að vera að notfæra sér annað fólk, heldur snýst þetta um að þú ert að koma þér á framfæri,þreifa fyrir þér, sýna áhuga, metnað og vilja til að mynda góð tengsl.

Í dag getur samkeppnin um góð störf verið hörð. Jafnvel hundruð sækja um eftirsóknarverð störf. Því er viðbúið að þeir sem eingöngu treysta á að fá vinnu gegnum auglýst störf séu lengur að fá starf í dag en áður. Rannsóknir sína að margir fá vinnu í gegnum sitt tengslanet. Allir eru með eitthvað tengslanet. Auðvitað er stærð tengslanetsins misjöfn og einstaklingar tilheyra mis mörgum hópum. Aldur, fyrri reynsla, menntun, orðspor: allt hefur þetta áhrif. Nú er tíminn til að hafa samband við vini og ættingja og láta vita að þú sért í atvinnuleit. Hver veit nema að það leiði til atvinnuviðtals?


Fjölskyldumeðlimir, vinir, nágrannar, skólafélagar, kennarar, núverandi og fyrrverandi starfsfélagar, æfingafélagar, kunningjar úr félagsstarfi, sjálfboðaliðastarfi, foreldra- og bekkjarstarfi ofl. Þetta geta verið fyrrum yfirmenn, viðskiptavinir, verktakar eða einhver sem þú hefur tengst í gegnum fyrri störf. Kannski er þetta jafnvel einstaklingur sem þú þekkir lítið en veist að þið hafið svipuð áhugamál eða tilheyrið sama faginu og þú treystir þér til að leita til. Kannski ertu í fagfélagi eða í stéttarfélagi sem er með fingurinn á púlsinum. Síðast en ekki síst eru samfélagsmiðlar drjúgir í tengslamyndun,  á borð við Facebook, Instagram,  TIK TOK, Snapchat, Linked in, X, Discord eða Telegram.

Það kemur oft fyrir að laust starf er eingöngu auglýst innan fyrirtækisins og spyrst þannig út. Það er jákvætt að fá til sín aðila í viðtal sem hefur sýnt fyrirtækinu áhuga með því að heyra í kunningja sínum sem þekkir stjórnandann. Þannig verða margar árangursríkar ráðningar og sá sem nýtti sitt tengslanet fékk draumastarfið.


Störfin koma  sjaldnast til manns á færibandi án þess maðiur þurfi að hafa fyrir því. Frumkvæði og áræðni skipta miklu máli í atvinnuleitinni. Þú verður að þora að sýna frumkvæði og hafa allar klær úti. Þú verður að vera tilbúin/n í að nota hefðbundnar og óhefðbundnar leiðir í atvinnuleitinni og huga að verkefninu eins og hverri annarri vinnu.

·         Hafðu samband við fyrirtæki sem þú hefur áhuga á, óháð hvort þau séu að auglýsa laus störf eða ekki.

·         Nýttu þér tengslanetið þitt.

·         Skráðu þig hjá vinnumiðlunum.

Taktu að þér tímabundin verkefni eða störf sem eru ekki endilega draumastarfið. Slíkt lítur vel út á ferilskrá og getur aukið líkur á ráðningu.


Sjálfskoðun fyrir atvinnuleit

Atvinnuleit má líkja við fullt starf. En til þess að þú getir áttað þig á hvernig starf hentar þér er gott að hugleiða hver þú ert og hvað þig langar að gera. Gott er að spyrja sig spurninga og setja jafnvel á blað við upphaf atvinnuleitar.

Komdu þér fyrir í ró og næði með blað í hönd eða tölvu og skrifaðu hjá þér þínar hugleiðingar á meðan þú veltir fyrir þér þessum spurningum.

Tilgangurinn með að leita þessara svara hjá þér er til að auðvelda atvinnuleitina og vali á starfi. Því betur sem þú þekkir sjálfan þig, því líklegra er að þú fáir það starf sem þig dreymir um.

  • Hvar liggur áhugi minn?
  • Hvaða eiginleika hef ég?
  • Hvaða starf hentar mér?
  • Hverjir eru styrkleikar mínir?
  • Hvaða viðhorf hef ég til vinnu ?
  • Hver er mín helsta áskorun í atvinnuleitinni?
  • Hver í kringum mig getur verið mér innan handar með næstu skref?
  • Hvernig hef ég fengið störfin semég hef sinnt hingað til? Gætu þau ráð átt við enn í dag?
  • Hvað hjálpar mér mest á næstu dögum til að vera upp á mitt besta?
  • Er þetta tíminn til að lesa mér til eða læra eitthvað nýtt?
  • Hvaða verkefni vil ég takast á við í mínu persónulega lífi einmitt núna?

Tilgangurinn með að leita þessara svara hjá þér er til að auðvelda atvinnuleitina og val á starfi. Því betur sem þú þekkir sjálfan þig, því líklegra er að þú fáir það starf sem þig dreymir um.


Hvar liggur þitt áhugasvið?

Áhugasviðskannanir eru mælitæki sem hjálpa fólki að átta sig á því hvaða störf, nám eða svið gætu hentað því best. Þær kortleggja áhuga þinn á mismunandi verkefnum eða viðfangasefnum og setja niðurstöður í flokka á borð við raunvísindi, mannleg samskipti, sköpun eða viðskipti.

Áhugasviðskannanir eru ekki að fara að segja þér við hvað þú átt að starfa, heldur verkfæri sem getur hjálpað þér í að finna réttu leiðina í námi eða starfi.

Það er hægt að taka áhugasviðskönnun (Bendill) hjá náms- og starfsráðgjöfum Vinnumálastofnunar.  Til að komast í áhugasviðspróf hjá Vinnumálastofnun þarf að senda tölvupóst á radgjafar@vmst.is

Mundu að hlúa að þér

Mikilvægt er að hlúa að sjálfum sér þar sem atvinnuleit getur verið tímafrekt ferli og því gott að skipuleggja hvern dag fyrir sig. Ákveða tímafjölda sem fer í atvinnuleit, almenn heimilisstörf og eigin vellíðan. Til að auka vellíðan er mikilvægt að hreyfa sig til dæmis að fara út að ganga, fara í sund, hitta vini og nærast vel.

Kvíði og áhyggjur

Ráðgjafar Vinnumálastofnunar hafa tekið saman nokkur góð ráð við kvíða og áhyggjum. Mikilvægt að deila þeim með sínum nánustu og leita leiða. Það má líkja atvinnuleitinni við það að borða fíl. Hvernig borðar maður fíl? Jú maður getur það ekki, nema að taka bara einn lítinn bita í einu. Því er gott að bita niður verkefnin í viðráðanlega hluta t.d. eins og fara yfir ferilskrána og skrifa kynningarbréf.

Athugið að þetta er ekki tæmandi listi.

Á erfiðum tímum þurfum við öll meiri stuðning. Verum því sérstaklega nærgætin hvert við annað. Hér koma nokkrar hugmyndir sem geta hjálpað:

  • Haltu í rútínuna s.s. fara á fætur, borða reglulega, hreyfa þig, sinntu áhugamálum.
  • Ekki vera mikið einn/ein. Nú er rétti tíminn að heyra í vinum og fjölskyldu. Hjálparsími Rauða krossins er 1717 og netspall á 1717.is þar sem hægt er að leita ráða og óska eftir símavini.
  • Það er hollt að halda dagbók.
  • Skrifaðu niður þrennt sem var ánægjulegt í dag. Gerðu þetta í alla vega viku.
  • Hverju hefur þú stjórn á í erfiðum aðstæðum? Einbeittu þér að þeim hlutum. T.d. eigin viðhorfi, jákvæðum hlutum gerðu eitthvað uppbyggilegt, vertu góður við einhvern.
  • Gerðu áætlun. Hvað ætlar þú að gera næstu daga. Það hjálpar að gera dagskrá, sjá ávinning af tíma þínum og að hafa tímaramma.

Ekki reyna að vera fullkomin/n. Þakkaðu fyrir það sem þú hefur. Enginn hefur allt. Enginn hefur ekkert. Þú stýrir ekki atburðum lífsins en þú stýrir hugsunum þínum og hvernig þú ákveður að takast á við hlutina. Gleymdu því ekki að þú ert ágætur en auðvitað má maður alltaf þjálfa sig í að verða betri. Við viljum öll vaxa, vera metin, finna fyrir öryggi og hlakka til framtíðarinnar. Og síðast en alls ekki síst þá mundu eftir ráðgjafaþjónustu okkar hjá Vinnumálastofnun.

Að hlúa að sjálfum sér þýðir að þú gefur þér svigrúm til að hlusta eftir eigin líðan og gerir það sem lætur þér líða betur. Þegar okkur líður vel þá tökum við skynsamlegri og yfirvegaðri ákvarðanir og verðum einnig betri í samskiptum.