Ráðgjöf og þjónusta

Radgjafarthjonusta

Á síðunni

Ráðgjafarþjónusta

Hjá Vinnumálastofnun starfar breiður hópur fagmenntaðra ráðgjafa. Þangað má leita til að  fá upplýsingar um náms- og starfsval, um hvernig atvinnuleit er best háttað, um markmiðasetningu, stefnumótun, möguleika á starfsþjálfun og tækifæra til nýsköpunar.

Í nútímasamfélagi  eru örar breytingar á þróun starfa  og þú mátt búast við því að þurfa að breyta um starfsvettvang kannski oftar en einu sinni á þinni starfsævi. Sum störf leggjast niður en önnur koma í staðinn. Það getur  fylgt því mikil  óvissa að vera án atvinnu og  þá er mikilvægt að þú setjir þér raunhæf markmið og  hugir  meðvitað að andlegri líðan. Það er eðlilegt að finna fyrir áhyggjum og jafnvel kvíða þegar við stöndum frammi fyrir þeirri óvissu sem fylgir atvinnumissi og mikilvægt  að hlúa að sér og láta þessar tilfinningar ekki taka yfir.

Að missa vinnuna getur haft í för með sér breytingar á högum þínum í ákveðinn tíma. Á þessu tímabili  getur þú  nýtt tækifærið til að styrkja stöðu þína á vinnumarkaði  til dæmis með námi, námskeiði eða einhverju öðru sem eykur líkurnar á tækifæri til að komast aftur á vinnumarkaðinn. Að fá ráðningu með styrk eða skapa eigið atvinnutækifæri er einnig úrlausn sem vert er að skoða. Stundum getur verið erfitt að að vinna úr breyttum aðstæðum t.d vegna persónulegra aðstæðna eða að þú hafir   ekki haft tækifæri til símenntunar. Þá er gott að endurhugsa hlutina og leita sér ráðgjafar og aðstoðar. Ráðgjafar Vinnumálastofnunar veita stuðning við atvinnumissi og mörg námskeið eru í boði sem gætu hentað þér. Hægt er að panta viðtal hjá ráðgjafa eða senda skilaboð í gegnum Mínar síður. 

Hvað er gott að hafa í huga fyrir viðtal við ráðgjafa?

Til að fá sem mest út úr viðtali við ráðgjafa hjá Vinnumálastofnun er gott að þú sért búin/n að velta fyrir þér ákveðnum spurningum til að fá sem mest út úr viðtalinu. Mundu að með opnu og jákvæðu hugarfari er meiri hvati til að endurhugsa hlutina og meiri hvati til að leiðast á nýjar brautir. Viðtöl við ráðgjafa geta farið fram í lokuðu rými á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar en það getur líka farið fram í formi fjarviðtals.  Þú kemur þér vel fyrir í ró og næði fyrir framan tölvuna þína þannig að þú getir  átt gott samtal við ráðgjafa í gegnum samskiptaforritið Teams.

Hjá Vinnumálastofnun  starfa þrautreyndir ráðgjafar með mikla þekkingu og reynslu úr heimi vinnumiðlunar, símenntunar og geðheilbrigðis. Hér eru spurningar sem gætu nýst þér í viðtali við ráðgjafa:

  • Hvernig er líðan þessa stundina?
  • Hvaða aðstoð gæti helst gagnast þér í atvinnuleit?
  • Hvernig starfi ert þú að stefna að?
  • Hvort eitthvað nám/námskeið gæti styrkt þig eða aukið líkur á að fá starf? Hvaða drauma hefur þú haft um nám, störf eða sjálfstæðan rekstur?
  • Hvað getur þú gert betur til auka líkur á að fá starf?
  • Hvernig yfirstígur þú hindranir til að komast í vinnu?  Þarftu aðstoð til þess?
  • Ertu með spurningar sem þig vantar svör við s.s. um námsstyrki, úrræði á vegum Vinnumálastofnunar, um svigrúm til endurhæfingar eða annað?

Það er oft gott að deila hugsunum sínum með öðrum og oft sjá augu betur en auga. Mundu að öll ráðgjöf er byggð á gagnkvæmum trúnaði, trausti og virðingu en allir ráðgjafar Vinnumálastofnunar eru bundnir þagnarskyldu samkvæmt lögum. Báðir aðilar í ráðgjafaviðtali skulu ávallt sýna vandaða og viðeigandi háttsemi.


Fjarviðtöl eru aukin stafræn þjónusta Vinnumálastofnunar. Það eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga áður en slíkt viðtal á sér stað.

  • Þú færð senda slóð á fund í tölvupósti. Þar koma nánari leiðbeiningar um hvernig skal hlaða niður Teams og komast inn á fundinn.
  • Þú skalt gæta þess að búnaður (sími eða tölva) sé fullhlaðinn og netsamband sé nægilega gott fyrir myndviðtal.
  • Upptökur eru ekki leyfðar nema þá með samþykki beggja aðila.

Hér getur þú bókað fjarviðtal.